Leita í fréttum mbl.is

Að mennta sig frá kennslu

Menntun er mjög mikilvæg.....ég yrði seinasta manneskjan í heiminu til að mótmæla því - en ég hef samt verið að spá í því undanfarið hvort hún sé alltaf  samfélagslega bætandi.

Til að skýra þessar sérkennilegu vangaveltur mínar langar mig til að segja ykkur frá vinkonu minni einni sem er, vel að merkja sérlega flinkur og frábær yngri barna kennari. Undanfarin ár hefur hún þó verið að bæta við sig stjórnunarmenntun meðfram vinnu og barnauppeldi. Um daginn sagði hún mér að sér hefði verið boðin stjórnunarstaða í skólanum sem hún er að vinna í og í stað þess að hugsa - "Frábært ! - gott fyrir þig", þá stóð ég mig að því að hugsa : "Æ, enn einn frábæri kennarinn sem hverfur úr kennslu." Þessi vinkona mín er ekkert einsdæmi - skólar landsins eru fullir af stjórnendum sem einu sinni voru frábærir kennarar.

Kannski er ég bara ein um þessar áhyggjur af því hve stjórnunarbatterí allra stofnana samfélagsins er orðið viðamikið og dýrt.  Mér finnst við nefnilega vera komin með fjölmarga stjóra og stýrur sem stýra og stjórna öðrum stjórum og stýrum sem síðan stýra og stjórna öðrum. Einhversstaðar í öllu þessu stjórnunarferli týnist svo ábyrgðin á verkinu sjálfu og þeir sem síðan inna af hendi hina raunverulegu vinnu fá minnst fyrir sinn snúð. Stjórar fá auðvitað betur borgað en aðrir  og því vilja allir vera stjórar - skiljanlega. Mín skoðun er sú að kennarar séu í lykilstöðu í skólanum og eiga að fá vel borgað fyrir þá vinnu. Þá fyrst gætum við stoppað þetta flæði úr kennslustofunni.

Skólastarf stendur og fellur með kennurunum og því er mikilvægt fyrir okkur sem menntaða þjóð að halda í alla okkar færustu kennara þar sem þeir gera mest gagn - í kennslu. Þegar kennaranám verður orðið 5 ára háskólanám, gæti staðan orðið sú að engir kennarar fáist inn í skólana til að kenna, þar sem menntun viðkomandi og kröfur um laun vegna hennar verða með þeim hætti að þeir telja það ekki ómaksins vert að vinna inn á gólfi með nemendum. 


Gullkorn

Það er oft skemmtilegt að vera kennari. Reyndar finnst mér það eiginlega MJÖG oft skemmtilegt. Börn eru nefnilega oft skýr og skemmtileg og ótrúlegustu gullkorn sem hrjóta af vörum þeirra - bara alveg svona óvart.....

Kannski finnst ykkur þetta ekki eins fyndið og mér - en hér læt ég nokkur "korn" flakka.

Það er aldrei of varlega farið. Um daginn var aspassúpa hjá okkur í matinn og fannst flestum krökkunum hún mjög góð og borðuðu vel. En ég tók eftir því að ein lítil stóð mjög fljótlega upp frá borðinu og fór að ausa af fullum diskinum sínum í ruslafötuna. Ég spurði hana afhverju hún vær að hella niður súpunni sinni án þess að smakka hana. Hún svaraði að bragði: ,, Ég ætla sko ekki að fá asma af þessari Asmasúpu!".

Við erum nýfarin að læra ensku með formlegum hætti í 3. bekk. Í einum enskutímanum skrifuðum við niður ýmis ensk orð sem nemendur kunnu (án þess að hafa "lært" þau eitthvað sérstaklega). Ýmis flott orð komu fram m.a. orðið "boot-camp". Þau vildu fá að vita nákvæmlega hvað orðið þýddi svo ég sagði þeim að orðið boot merkti einskonar skór/stígvél og camp væru einskonar búðir/tjaldbúðir. Þá rétti einn snjall upp hönd og sagði: "Hey, þá hlýtur boot-camp að þýða SKÓBÚÐIR!

Í strætó á leið heim úr Hallgrímskirkju, kom einn snáðinn auga á annan strætisvagn fyrir aftan okkur. Hann horfði á merkinguna framan á vagninum í góða stund og sagði svo:,,S1 ...Þýðir það ekki að hann sé seinn?"

,,Ég held ég sé klaufdýr" sagði ein lítil í tíma um daginn um leið og hún dæsti. ,,Ég er svo mikill klaufi." 


 Svo er hér einn gamall og góður úr sex ára bekk.....talandi um að vilja fylgja fyrirmælum.

Í sex ára bekk höfðum við unnið í nokkurn tíma markvisst með það að "rétta upp hönd" þegar einhver vill tala eða vantar aðstoð. Þetta hafði gengið nokkuð vel og flestir orðnir nokkuð færir í handauppréttingu en þó kannski enginn eins og snáðinn sem vaknaði einn morguninn frekar fúll og sagði við mömmu sína: ,,Mamma, ég er búinn að rétta upp hönd í alla nótt og þú komst aldrei og hjálpaðir mér .............og svo er mér orðið dauðillt í höndinni."

Þegar mamman spurði "áhyggjufull" á svip hvað það hefði verið sem hann þurfti svona brýna hjálp við sagðist hann löngu vera búinn að gleyma því ,,-hann hefði þurft að bíða svo lengi."´

(Sé hann alveg fyrir mér, liggjandi í rúminu með höndina lóðrétta upp í loftiðLoL)


Svo lööööt......

...að ég nenni varla að blogga...hvað þá að gera eitthvað annað. Frí eru yndisleg en mjög spillandi um leið. Er búin að vafra um netið í dágóðan tíma og lesa um ýmislegt merkilegt s.s. hauskúpur og hunda á bæn. Hvað er annars með þessa hauskúpu? Datt engum í hug að láta kanna þetta? Það er kannski bara spurningin að fá Erlend sjálfan í málið.  Næsta bók um hann gæti þá kannski heitið "Kjósin" eða "Kúpan" (af því að bækur Arnaldar heita alltaf bara einu nafni).

Á morgun byrjar ný (en stutt) vinnuvika. Byrjum þá á fundum og undirbúningi en svo mæta nemendur galvaskir á miðvikudag. Hlakka til að hitta þá og allt skemmtilega fólkið sem ég vinn með - komin með nóg af fríi - í bili.


Annríki í fríi

Ég hef alltaf svo mikið að gera í fríunum mínum að það verður oft lítið úr fríi.

Þannig er það og þannig hefur það eiginlega alltaf verið. Ég byrja nefnilega sístematískt að "geyma" ýmsar framkvæmdir nokkrum vikum fyrir frí og segi við sjálfa mig ,,Geri þetta bara í fríinu - þá hef ég svo góðan tíma." 

Þess vegna er ekkert tekið til í garðinum fyrr en ég fer í páskafrí, stórhreingerningin á baðinu er látin bíða, tiltekt í eldhússkápum frestað, safnað í stóran haug fyrir ferð í Sorpu, skýrslugerðir settar á hold svo fátt eitt sé nefnt. Síðan set ég upp mjög metnaðarfullt plan. Gleymist samt alltaf hjá mér að gera ráð fyrir öllum viðburðunum sem detta venjulega inn á þessa fáu frídaga. Viðburðir s.s. fermingar ættmenna, afmæli, matarboð og þess háttar.  Svo má ekki gleyma veðrinu sem á einhvern undarlegan hátt verður allt í einu svo gott að sundferðir færast efst á forgangslistann. Þá verða gönguferðir, bóklestur og morgunlúr, um svipað leyti mikilvægur hluti af lífstílnum.

Svo þegar fríið er búið þá hef ég af einhverjum undarlegum ástæðum ekki komist yfir nema hluta þeirra verkefna sem fyrir lágu, en ég er þó örlítið dekkri á hörund, örlítið útsofnari, örlítið mettari eftir páskamatinn, örlítið afslappaðri og kærulausari því hvað gerir það til þó þetta hafi ekki klárast í þessu fríi? Næsta frí er á næsta leyti ... og þá ætla ég sko að.........Cool

 


Á "óléttu" nótunum

Heyrði þessa skemmtilegu sögu frá vinkonu minni sem kennir í sama skóla og ég. Nemendur höfðu farið  til hjúkrunarkonunnar í hina árlegu hæðar, þyngdar og sjónmælingu. Einn úr sjöunda bekk var með þetta allt á tæru þegar hann var spurður út í það hvað þau hefðu verið að gera hjá hjúkkunni. "Við vorum í svona Þungunarprófi", var hið greinagóða og lýsandi svar. LoL

 


Kennaramenntun - gæði umfram magn.

Var á opnum fundi með Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra í vikunni hér í Grafarvogi. Þar reifaði ráðherrann  sýn sína á menntamál og reyndar mörg önnur mál ásamt því að svara fyrirspurnum úr sal. Við mættum sjö kennslukvinnur úr mínum skóla og bjuggumst að sjálfsögðu við góðri mætingu frá öðrum skólum hverfisins á fundinn. Sú varð ekki raunin, einungis ein önnur kennsluKONA var á fundinum (að því ég best veit). Aðrir fundargestir voru Sjálfstæðismenn og flestir karlkyns. Þetta finnst mér undarlegt áhugaleysi hjá kennurum.

Á fundinum var m.a. rætt um lengingu kennaranámsins. Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að kennaramenntun sé þess eðlis að hún eigi að vera í stöðugri endurskoðun. Samfélagið okkar tekur breytingum og kennarar verða ætíð að vera samstíga þeim breytingum. Hvort 5 ára kennaranám sé svarið við lausn kennaravanda skólanna finnst mér aftur á móti álitamál. Innihald menntunarinnar, faglegar kröfur og þjálfun á vettvangi finnst mér eiga að vera þær vörður sem námið eigi að standa á. Tveggja ára lenging kostar sitt, . Skattgreiðendur munu fá að axla þá ábyrgð. Nemarnir þurfa einnig að fjarmagna menntun sína tveimur árum lengur og taka til þess há lán. Laun kennara eru með þeim hætti í dag að mér er til efs að margir vilji eyða þeim tíma og peningum sem þetta kostar fyrir jafn léleg laun.  En síðast en ekki síst, þá verður að tryggja það að þessi lenging skili okkur sannalega betri kennurum. Það er mín skoðun að 24 mánaða ritgerðavinna eða sálfræðikúrsar hafi sáralítið vægi fyrir hinn nýútskrifaða kennara þegar hann stendur fyrir framan 24 barna 8 ára bekk, þar sem fjölmargir einhverja hegðunargreiningu, nokkrir eru á lyfjum, sumir búa við erfiðar heimilisaðstæður og þá eru ótaldir þeir sem eru lesblindir eða með aðra námsörðugleika.  Þetta hefur reynst mörgum nýútskrifuðum kennaranum erfiður þröskuldur á fyrsta kennsluári og margir þeirra hafa gefist upp og ekki skilað sér aftur í kennsluna. Það þarf nefnilega að undirbúa kennaranema betur undir kennslu í íslenskum skólum Erlendar kennisetningar og fræði eiga alls ekki alltaf við okkur, enda erum við eins og alþjóð veit svolítið "spes".:-)

Kennarastarfið er bara þess eðlis að erfitt er að læra það á bókina. Starfið felst í samskiptum við nemendur daginn út og inn og kennarinn verður að vera fær um að leysa ófyrirséð vandamál á hraðan og markvissan hátt. Því finnst mér að praktískur undirbúningur undir kennslu ásamt fjölbreyttum tækifærum til handa kennaranemum til að æfa sig í kennslunni eigi að vera sú viðbót sem aukin kennaramenntun eigi að byggjast á. Sálfræðikenningar og ýmis theorísk fræði eru jú góðar leikfimi-æfingar fyrir hugann og andlegan þankagang en fyrir kennarastarfið finnst mér nauðsynlegt að beita þjálffræðilegum aðferðum í meira mæli. Eftirfarandi texti er mörgum kennurum kunnur og ekki að ósekju - flestar fræðikenningar um kennslu byggjast á þessum einföldu "sannindum".

Segðu mér ég gleymi

Sýndu mér ég man.

Leyfðu mér að vera með

og hlutinn þá ég kann.

Mín tillaga er sú að kennaranámi verði lengt í 4 ár ( til að byrja með) og yrði þetta fjórða ár nokkurs konar kandidatsár. Grunnskólar myndu t.d. sækja um til Kennaraháskólans á hverju ári eftir nemum sem yrðu ráðnir sem aðstoðarkennarar í stórum/erfiðum bekkjum í skólunum. Nemarnir fengju að fylgjast með reyndum kennara að störfum og lærðu um leið helstu handtök þau sem kennarar þurfa að inna af hendi á venjulegu skólaári. Þeir myndu kynnast vinnuumhverfinu betur og hvernig foreldrasamstarf færi fram. Þeir myndu koma að heildarskipulagi kennsluársins og gætu prófað það sem þau hefðu verið að læra í kennaranáminu með markvissum hætti og í raunverulegum aðstæðum. Kennaranemarnir fengju þetta fjórða ár, stuðningskennaralaun enda gengju þeir í þeirra störf. Þarna væru sem sagt tvær (eða þrjár) flugur slegnar í einu höggi. Nemendur fengju lærdómsríka reynslu, skólarnir gætu mannað stuðningsfulltrúastöður með menntuðu fólki (sem hefði bæði áhuga, menntun og getu til að sinna starfinu vel) og kennaranemar fengju greidd laun og þyrftu því ekki að taka námslán á meðan. 

Kennsla á að vera starf sem borgar sig - því það borgar sig ekki fyrir samfélagið að vanrækja hana.


Af hverju að mæta í skólann...

 .....þegar maður getur borðað nestið sitt heima!

Rósa Harðardóttir kennari veltir þeirri spurningu fyrir sér á síðunni sinni rosa.blog.is, hvað það sé eiginlega sem fái kennara til að mæta á hverjum morgni til vinnu, jafnvel brosandi. Þetta er mjög umhugsunarverð spurning og ég get auðvitað bara svarað fyrir sjálfa mig. Það er fólkið sem ég vinn með, bæði nemendur mínir og samstarfsfólk. Ég tel ekkert starf jafnast að mikilvægi við kennarastarfið. Það að móta framtíð þjóðarinnar, hlýtur að vera samfélagslega þenkjandi einstaklingum krefjandi ákorun og gera kennarastarfið um leið eftirsóknarvert. Þrátt fyrir umtöluð skammarlaun. Ég mæti hvern dag inn í stofu til nemenda minna með ný verkefni sem ég vonast til að kveiki áhuga þeirra, þjálfi upp færni þeirra og virki sköpunarkraft þann sem í þeim býr. Suma daga tekst vel til, aðra síður. En maður getur ekki gefist upp.....það má ekki , því eins og Júlía Andrews söng svo fagurlega um í Sound of Music hér um árið "Nothing comes from nothing".

Skóli er samfélag, samfélag þar sem hver lærir af öðrum. Fyrir nokkrum árum orti ég ljóð fyrir bekkinn minn sem sýnir kennski betur hvað ég er að meina.

Endurminning kennarans

Ég man
tannlaus brosin
tindrandi augun
og tíumilljón spurningar.


Ég man
hlýjar barnshendur
húfuklædd höfuð
og hjartanlegan hlátur.


Ég man
barnslegu einlægnina
blikandi stoltið
og bekkjarkvöldin.


Ég man
sex ára svipinn
sjö ára flissið
og skólatöskur í gúmmístígvélum.


Ég man
krummafót
kríuegg
og kátustu krakkana.

Ég man
að ég ætlaði
að kenna ykkur
svo margt.


Hvað, man ég ekki lengur.
Það eina
sem ég man
er það sem þið
kennduð mér.


Af hverju vantar enn leikskólakennara?

Var á fundi í dag um samningsmarkmið þau sem KÍ og Launanefnd sveitafélaga eru að vinna að. Kom í ljós að leikskólakennarar eru með 20-30. þús hærri grunnlaun en kennarar. Stefnan er að ná þeim launum og helst meira. Sveitarfélögin eru áhyggufull vegna skorts á kennurum á þessum skólastigum og hærri laun virðast vera sá þáttur sem allir tala um að verði að bæta úr til að fá kennarana til snúa aftur til starfa inn í skólana.

Nú fengu leikskólakennarar umtalsverða hækkun síðast en samt virðist enn vanta menntaða leikskólakennara til starfa. Hvað veldur? Ætti ekki að vera fullmannað á flestum ef ekki öllum leikskólum landsins miðað við þetta? Er það eitthvað tryggt þó laun kennara hækki um 20-40 þús. að þeir flykkist aftur inn í skólana. Ég tala nú ekki um eftir að 5 ára námið verður komið á koppinn. Hef nefnilega áhyggjur af því að fólk sé að mennta sig frá kennslu. Að minnsta kosti hafa allir sem ég þekki sem hafa bætt við sig master-námi horfið í önnur störf að námi loknu. Líklega verður að hækka launin enn meira til þess að eitthvað gerist og þá er það stóra spurningin....Er einhver vilji til þess - þá meina ég alvöru vilji.


Blogg um ekki neitt

Þetta blogg er ekki um neitt.

Þetta er auðvitað ósatt,

því um leið og ég segi þetta hefur bloggið fengið innihald.

Kannski væri betra að segja að þetta blogg sé ekki um neitt sérstakt.

En ef það er ekki um neitt sérstakt,

þá er það líklega um allt.

Svo þegar öll kurl eru komin til grafar

mætti þá með kannski segja að þetta blogg 

sé um allt

.....og ekkert.


« Fyrri síða

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband