Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Af börnum og bakaríisnöfnum

Mér finnst ótrúlega gaman að spá í nöfn og orð og samsetningar á þeim. Margir hafa skrifað skemmtilegar pælingar um hugsanlegt framtíðarbarnaafmæli þegar Línus Gauti og Mist Eik mæta á svæðið. En venjuleg nöfn geta einnig orðið að sérkennilegum samsetningum ef mikill vilji til útúrsnúnings og stríðni er til staðar. Tökum t.d. nöfnin Emil og Jón. Venjuleg "klassísk" nöfn - ekki satt?  Segjum að Strákurinn sem beri þau stami örlítið. Aðspurður að nafni gæti hann ekki sem best svarað Eee - milljón.  

Svo verður mér stundum hugsað til Harðar vinar míns sem ætlaði að verða bakari þegar hann yrði stór. Hann var nefnilega búinn að ákveða nafnið á bakaríinu sínu. Það átti að heita því  aðlaðandi nafni "Harðar kökur og brauð." Til allrar óhamingju hætti Hörður við að verða bakari og því varð ekkert af þessu....er viss um það hefði verið stöðugt rennirí hjá honum.

Á ensku verður hið sakleysislega heiti "therapist" að hinu ógnvægilega "The rapist " ef bil er sett á milli. Þetta með bilin á milli orða og orðhluta hefur heillað mig frá því að ég man eftir mér. Einnig framburður og mismunandi merking eftir framburði og áherslum. (Eins og sést á þessu þá var ég afar hugsandi barn) Ég man eftir að hafa endurtekið setninguna "Uxinn sagði hug sinn hugsi" á mismunandi vegu þ.e. Hugsi sagði uxinn hug sinn, Uxinn sagði hugsi hug sinn, Hug sinn sagði uxinn hugsi. Þegar maður segir þetta í belg og biðu heyrist enginn munur. Prófið þetta endilega þegar þið hafið ekkert betra að gera.

Í bekknum mínum eru tvö yndisleg börn sem heita Björgvin og Guðbjörg. Einn daginn höfðu þau skrifað nöfnin sín hlið við hlið á töfluna með svolítið skemmtilega ójöfnum bilum á milli stafana. Þá varð þetta litla ljóð til í hausnum á mér.

 

Á Guð Björgvin?
Á Guðbjörg vin?

Það eru bilin
sem ráða hvernig
orð eru skilin.

 


Saga úr sundlauginni

Á bakinu fyrir framan mig,

máttlaus og lífvana lá.

Horfði á hana fljóta hægt

í áttina að mér - svo smá.

Þegar hún straukst við mig,

 færði ég mig frá.

Kona í bleikum sundbol,

kom og settist mér hjá.

Rétti fram höndina

og undir hana brá.

Hent´enni upp á bakka

án þess að líta hana á.

,,Pöddu í potti heitum, vil ég ekki sjá!"

- sagði hún þá.

Fór í sund í dag - tvisvar. Er alveg soðin eftir daginn. Samt ekki eins og þetta flugugrey sem ég rakst á í pottinum í dag. Blush

Er svo búin að vera að reyna að laga til hér á síðunni minni. Stillingin mín og uppsetning fór veg allar veraldar í biluninni hér um daginn , en ég hélt ró minni og stilllingu og nú hef ég sumsé ákveðið að hafa þetta svona á næstunni. 


Án ábyrgðar

Skrýtið....
hvernig
ábyrgð annarra
á okkur
virðist
alltaf meiri
en
ábyrgð okkar
á öðrum.
  
 

 

Hef oft velt þessu fyrir mér og spurt sjálfa mig Sókratískra spurninga á borð við:     

 

,, Hver ber ábyrgð á fólki sem kann ekki fótum sínum forráð fjármálum, fellur í áfengis eða vímuefnafenið, lendir upp á kant við “kerfið”, flosnar upp úr skóla, heldur ekki vinnu og leiðist út á glæpabrautina? “   

 

,, Samfélagið – auðvitað”, svara ég sjálfri mér.   

 

 ,,Hvernig ber samfélagið ábyrgðina?”  

 

,, Nú með því að sjá um fræðslu og stuðning fyrir þegna sína og veita þeim viðeigandi meðferð , þegar það á við.”   

 

,,Hverjir gera það?”  

 

,,Nú, ýmsir sérmenntaðir fagmenn s.s. kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, félagsráðgjafar og svo auðvitað almenningur.” 

,Þú meinar þá einhverjir eins og ég og þú?”,

,,Já,”  

 

,,Hver ber þá ábyrgð á okkur?”   

 

,,Enginn, við berum hana sjálf.”  

 

,,Þannig að það eru bara sumir sem bera ábyrgð bæði á sjálfum sér og öðrum og sumir sem bera enga ábyrgð – hvorki á sjálfum sér né öðrum.”  

 

,,Ehmm, já líklega Woundering

 ,,…og virkar þetta ? “                                                                                                                         

Mama-mía!

Fór með 11 ofurkvinnum á öllum aldri í bíó í kvöld......og það var svooo gaman. Langt síðan maður hefur heyrt fólk hlæja jafn innilega og taka jafn virkan þátt í bíósýningu. Myndin sem vakti slíka kátínu var gaman-söngmyndin Mama mia sem er gerð eftir feykivinsælum söngleik sem byggður var á meistarverkum hljómsveitarinnar ABBA. Ég hafði lesið dóm um myndina og þar var sagt að hún væri ágæt en stæði þó söngleiknum mun aftar. Það var þó ekki að merkja á áhorfendum sem skemmtu sér eins og áður sagði hið besta. Sérstaklega fannst mér Dancing Queen atriðið flott og greinilegt var að leikararnir höfðu mjög gaman af því sem þeir voru að gera. Mæli með þessari - algjör "feelgood-mynd".

Er-maðurinn

Á tímum vols og væls er sjaldgjæft að lesa um jafn mikla þrautseigju og þrek og þessi rúmlega hálfrar aldar gamli maður sýndi í gær þegar hann synti yfir Ermasundið.

Flestir sundlaugargestir, sem finnst þeir nokk duglegir að synda 1000 metra í upphitaðri og lygnri sundlaug ættu að hugsa til þeirra aðstæðna sem þessi íslenski víkingur bjó við á leið sinni. Kuldi, sjávarstraumar, marglyttur, þang, myrkur, salt og 60 000 metra veglengd í ókyrrum sjó.

Það tók Benedikt Hjartarson 16 klukkutíma og eina mínútu að synda yfir Ermasundið - mér þætti nú bara erfitt að liggja í heita pottinum í þann tíma, hvað þá meira. Í mínum huga er maðurinn einn allra mesti afreksmaður ársins.

Til hamingju Benedikt með einstakt afrek !

 


mbl.is Sundið mikil þrekraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag er 06 07 08

..og sólin, sem búin var að boða komu sína á veðurstofunni, hefur ákveðið að “beila á” því og skreppa eitthvert annað.

Ég er búin að vera með iðnaðarmann í vinnu undanfarið í viðgerðarvinnu og þegar henni lauk þurfti að taka til og þrífa heil ósköp. Verð að segja að það er ekki mín alsterkasta hlið – þ.e. tiltekt.

Nú er stofan orðin fín og ég ætlaði svo sannalega að nota daginn í sund og sólbað...en maður verður bara að bíða og vona að sólarskömmin sé bara sein - hafi ekki alveg hætt við.                                                                                                                                                                                                                                                                                                       Tiltekt                                                                                              Það er á svona dögum
sem ég hef svo
óskaplega lítið
að segja.

Hendur mínar enn angandi
af salmíaksskotinni sítrónulykt.
Skúringaminningin
sveimandi um í bakinu.
Hálsinn þurr
af uppburstuðu ryki.

Og loðin tungan
fylgist áhugalaus með
hugsunum mínum
í líki
Ajax-stormsveips
reyna að taka sig til.

  

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband