Leita í fréttum mbl.is

Af börnum og bakaríisnöfnum

Mér finnst ótrúlega gaman að spá í nöfn og orð og samsetningar á þeim. Margir hafa skrifað skemmtilegar pælingar um hugsanlegt framtíðarbarnaafmæli þegar Línus Gauti og Mist Eik mæta á svæðið. En venjuleg nöfn geta einnig orðið að sérkennilegum samsetningum ef mikill vilji til útúrsnúnings og stríðni er til staðar. Tökum t.d. nöfnin Emil og Jón. Venjuleg "klassísk" nöfn - ekki satt?  Segjum að Strákurinn sem beri þau stami örlítið. Aðspurður að nafni gæti hann ekki sem best svarað Eee - milljón.  

Svo verður mér stundum hugsað til Harðar vinar míns sem ætlaði að verða bakari þegar hann yrði stór. Hann var nefnilega búinn að ákveða nafnið á bakaríinu sínu. Það átti að heita því  aðlaðandi nafni "Harðar kökur og brauð." Til allrar óhamingju hætti Hörður við að verða bakari og því varð ekkert af þessu....er viss um það hefði verið stöðugt rennirí hjá honum.

Á ensku verður hið sakleysislega heiti "therapist" að hinu ógnvægilega "The rapist " ef bil er sett á milli. Þetta með bilin á milli orða og orðhluta hefur heillað mig frá því að ég man eftir mér. Einnig framburður og mismunandi merking eftir framburði og áherslum. (Eins og sést á þessu þá var ég afar hugsandi barn) Ég man eftir að hafa endurtekið setninguna "Uxinn sagði hug sinn hugsi" á mismunandi vegu þ.e. Hugsi sagði uxinn hug sinn, Uxinn sagði hugsi hug sinn, Hug sinn sagði uxinn hugsi. Þegar maður segir þetta í belg og biðu heyrist enginn munur. Prófið þetta endilega þegar þið hafið ekkert betra að gera.

Í bekknum mínum eru tvö yndisleg börn sem heita Björgvin og Guðbjörg. Einn daginn höfðu þau skrifað nöfnin sín hlið við hlið á töfluna með svolítið skemmtilega ójöfnum bilum á milli stafana. Þá varð þetta litla ljóð til í hausnum á mér.

 

Á Guð Björgvin?
Á Guðbjörg vin?

Það eru bilin
sem ráða hvernig
orð eru skilin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Hljóða klettar? (Svar: Nei, það er áin sem heyrist í.) Sjá: http://www.ismennt.is/not/ingo/NATTABC.HTM#A

Skemmtilegar pælingar

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 5.8.2008 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband