Leita í fréttum mbl.is

Nokkrar myndir fyrir mömmu

Setti nokkrar myndir sem teknar voru á jólum og áramótum hér inn á myndasíðurnar.

Nota tækifærið í leiðinni og óska öllum sem þetta lesa gleðilegs nýs árs. Smile


.....og átu hana til æviloga....

Nei, ég er ekki að tala um skuld íslensku þjóðarinnar, heldur er ég að vitna í lok ritsmíðar eins nemanda míns á 4. bekkjar samræmda prófinu í morgun. Mér fannst þetta svo krúttlegt. Sagan var um litla mús sem krakkar fundu og björguðu en "átu hana svo til æviloga"Smile  

Talandi um skemmtilegar stafsetningarvillur. Dóttlan mín gaf okkur í jólagjöf fyrir fjölmörgum árum fallega kristilega bók þar sem hún hafði skrifað þakkir sínar til guðs. Um kvöldið settumst við niður og hófum að lesa upp úr henni, enda við hæfi svona á aðfangadagskveldi. Erfitt áttum við þó með að halda andlitinu þegar fagurlega rituð setningin: ,,Góði Guð - þakka þér fyrir að hafa gefið mér svona góða fjölSKITU" - blasti við.

 


Lúmskuleg leið til að fá mig til að blogga

...ég var sumsé klukkuð af frænku minni elskulegri og að sjálfsögðu mun ég svara klukkinu... 

4 störf  Kennari, verkstjóri í skólagörðum, sundþjálfari og þrifmey

 4 bíómyndir Sound of music,  Lord of the rings, Godfather 1-3 og Schindlers list

 4 Staðir sem ég hef búið á 108, 105, 111 og 112 Reykjavík

4 Sjónvarpsþættir Grays anatomy, Sex and the City, NCSI og allir þessir Law & order þættir.

 4 Staðir í fríum Ítalía, Grikkland, Spánn og Portúgal

4 netsíður Mbl.is ,starcrew.info, handbolti.is og bloggin

 4 Matarkyns Kjötsúpa, lambalæri, humar og rjúpan hjá tengdó

4 Uppáhaldsstaðir á Íslandi Reykjavík, sundlaugarnar víðs vegar um landið en annars á ég fáa uppáhaldsstaði,

 4 Óskir  Að lifa góðu lífi, í sátt við menn og mýs. Gera öðrum gagn og gaman. Öðlast góða heilsu og hugaró. Að fjölskyldu minni og vinum vegni ætíð sem best.

4 bloggvinir sem ég klukka rosa, þjoðarsálin, teygjustokk og eddaagn


Skýrir skákkrakkar

Flott hjá kökkunum í Rimaskóla. Smile Á reyndar sjálf einn keppandann í liðinu og er því ekki óhlutdræg. Hann er 11 ára og voru hann og vinur hans þremur árum yngri heldur en næstyngstu keppendurnir á mótinu. Góð vinna Rimaskólafólks í skáklistinni er svo sannalega að skila sér og framtíðin ætti að vera nokkuð björt líka.....þar sem enn fleiri ungir og efnilegir krakkar eru að koma upp til viðbótar við þessa.

Innilegar hamingjuóskir !


mbl.is Rimaskóli Norðurlandameistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðlestrarskilningur

Sat áhugaverða námstefnu um leiðir til að efla lesskilning í Víðistaðaskóla í dag. Var svo heppin að hitta bloggvinkonu mína hana Rósu á ráðstefnunni og fékk að sitja hjá henni. Það eitt hefði nægt til að gera þennan dag hinn skemmtilegastan en að auki voru fyrirlestrarnir flestir áhugaverðir. Við fengum t.d. að vita (sem við reyndar vissum) að íslenskir unglingar væru í meðallagi læsir. Voru svipaðir Norðmönnnum og Dönum en heldur á eftir Svíum og langt á eftir hinum hæsttrónandi Finnum....og það sem verra var, árangur íslenskra unglinga færi sífellt versnandi.

Í öðrum fyrirlestri kom fram að árið 1979 lásu 90% ungmenna í dagblöð á degi hverjum en árið 2003 lásu einungis 40% þeirra dagblöðin. Samt er aðgengi að slíku efni örugglega auðveldara heldur en áður fyrr. Kennarar hafa lengi bent á hversu mikið hinn almenni lestur hefur dregist saman og hversu lestrarþjálfunarþátturinn hafi verið vanræktur. Áhugi á bóklestri er skammalega lítill og því þurfa þessar tölur ekki að koma á óvart.

Þá var fjallað um gildi þess að efla mál og læsisþroska leikskólabarna og bent á nokkrar hagnýtar leiðir til þess. Góður hlustunarskilningur leikskólabarna skilar sér nefnilega í betri lesskilningi í grunnskóla. Tveir fyrirlestrar fjölluðu síðan um byrjendalæsi og gagnvirkan lestur en þar sem ég hafði kynnt mér hvorutveggja vel áður, kom þar ekkert á óvart. Hugarkort og gerð þeirra vöktu töluverðan áhuga hjá mér og ég hef einsett mér að ná betri færni í að nota þau.

En sá fyrirlestur sem mér fannst aftur á móti einna athyglisverðastur var um hraðlestur, sem leið til að efla lesskilning. Það hljómar mótsagnakennt að aukinn lestrarhraði skili sér í auknum lesskilningi en eftir að hafa hlýtt á mál Jóns Vigfúsar Bjarnasonar hef ég eiginlega komist á þá skoðun að þarna gæti verið um aðferð að ræða sem vannýtt er í lestrarnáminu. Nemendur Hraðlestraskólans árið 2007 voru að sögn Jóns Vigfúsar látnir taka próf í upphafi námskeiðsins og að meðaltali lásu þeir 165 orð á mínútu og voru með 64% lesskilning. Eftir 6 vikna þjálfun höfðu nemendur bætt sig verulega og lásu orðið 618 orð á mínútu að meðaltali og svöruðu 81% atriða rétt af lesskilningnum.

Mér finnst þetta feikigóður árangur og sýnir enn og aftur að það er hægt að bæta sig í lestri ef vilji, regluleg ástundun og hvatning er til staðar. Jón sagði að lágmarkshraði hugans væri í kringum 400 orð á mínútu og ef við læsum hægar en það missti fólk einbeitinguna og lesturinn yrði ómarkvissari og lesskilningur slakari. Það væri verulegt samhengi á milli meiri lesturs og aukins lesskilnings og um leið ykist orðaforðinn gifurlega. Umsagnir nemenda Hraðlestraskólans virtust allar lofsamlegar og töldu nemendurnir sig  hafa grætt gífurlega á námskeiðinu.

Það er kannski hugmynd að koma þessari aðferð inn á mið og unglingastig grunnskólanna......eða hljómar þetta kannski of vel til að geta verið satt?


Kvín-bí

Hún sveif
framhjá mér
gul og svört,
feit og loðin
með lítinn
mjóan karl
á bakinu...

...og ég veit ekki afhverju
ég fór að hugsa um
Gei præd.


Heimilisofbeldi

Í speglinum á baðinu, ást þín birtist mér.

Í kúlunni á enninu marblettum þar og hér.

Í speglinum á baðinu ást þín blasir við.

Skurður rétt hjá eyranu og nefið tvíbrotið.

 

Þegar ég renndi í gegnum Fréttablaðið í morgun, hnaut ég um frétt þar sem kona virðist hafa breytt framburði sínum gegn eiginmanni varðandi líkamsárás. Maðurinn hafði fyrst viðurkennt að hafa ,, sparkað í rassgatið á henni og sagt henni að drulla sér út og vel gæti verið að hann hefði danglað í hana líka". Hann breytti síðar framburðinum og það gerði konan líka sem sagðist hafa ,,gengið á hönd mannsins". Áverkar hennar við þessa handgöngu voru eftirfarandi: Hún hlaut blóðgúl undir húð vinstra megin á enni, V-laga skurð á eyrnasnepil, mar undir augabrún og á nefi, gagnauga, handlegg og á hné.

Auðvitað var ekki hægt að sakfella manninn þar sem konan dró ákæruna til baka. En mér finnst það samt umhugsunarvert hvort hún hafi einfaldlega rétt til þess þar sem "sönnunargögn" í málinu styðja upphaflega ákæru til fullnustu. Skýring konunnar á því að allt þetta geti hafa gerst bara við að ,,ganga á hönd mannsins" , finnst mér aftur á móti ekki ganga upp.

Konur sem verða fyrir langvarandi ofbeldi á heimili þróa með sér ákveðna sjálfsmynd sem gerir það að verkum að þær komast með engu móti út úr þessum vítahring af sjálfsdáðum. Mér finnst að löggjafinn og kerfið sem slíkt ætti að koma með markvissari hætti að því að uppræta þessa alltof algengu kúgun. Ofbeldi ætti aldrei að líðast - jafnvel þó annar aðilinn (eða báðir) virðast hafa gefið leyfi til slíks.

 

 


Af börnum og bakaríisnöfnum

Mér finnst ótrúlega gaman að spá í nöfn og orð og samsetningar á þeim. Margir hafa skrifað skemmtilegar pælingar um hugsanlegt framtíðarbarnaafmæli þegar Línus Gauti og Mist Eik mæta á svæðið. En venjuleg nöfn geta einnig orðið að sérkennilegum samsetningum ef mikill vilji til útúrsnúnings og stríðni er til staðar. Tökum t.d. nöfnin Emil og Jón. Venjuleg "klassísk" nöfn - ekki satt?  Segjum að Strákurinn sem beri þau stami örlítið. Aðspurður að nafni gæti hann ekki sem best svarað Eee - milljón.  

Svo verður mér stundum hugsað til Harðar vinar míns sem ætlaði að verða bakari þegar hann yrði stór. Hann var nefnilega búinn að ákveða nafnið á bakaríinu sínu. Það átti að heita því  aðlaðandi nafni "Harðar kökur og brauð." Til allrar óhamingju hætti Hörður við að verða bakari og því varð ekkert af þessu....er viss um það hefði verið stöðugt rennirí hjá honum.

Á ensku verður hið sakleysislega heiti "therapist" að hinu ógnvægilega "The rapist " ef bil er sett á milli. Þetta með bilin á milli orða og orðhluta hefur heillað mig frá því að ég man eftir mér. Einnig framburður og mismunandi merking eftir framburði og áherslum. (Eins og sést á þessu þá var ég afar hugsandi barn) Ég man eftir að hafa endurtekið setninguna "Uxinn sagði hug sinn hugsi" á mismunandi vegu þ.e. Hugsi sagði uxinn hug sinn, Uxinn sagði hugsi hug sinn, Hug sinn sagði uxinn hugsi. Þegar maður segir þetta í belg og biðu heyrist enginn munur. Prófið þetta endilega þegar þið hafið ekkert betra að gera.

Í bekknum mínum eru tvö yndisleg börn sem heita Björgvin og Guðbjörg. Einn daginn höfðu þau skrifað nöfnin sín hlið við hlið á töfluna með svolítið skemmtilega ójöfnum bilum á milli stafana. Þá varð þetta litla ljóð til í hausnum á mér.

 

Á Guð Björgvin?
Á Guðbjörg vin?

Það eru bilin
sem ráða hvernig
orð eru skilin.

 


Saga úr sundlauginni

Á bakinu fyrir framan mig,

máttlaus og lífvana lá.

Horfði á hana fljóta hægt

í áttina að mér - svo smá.

Þegar hún straukst við mig,

 færði ég mig frá.

Kona í bleikum sundbol,

kom og settist mér hjá.

Rétti fram höndina

og undir hana brá.

Hent´enni upp á bakka

án þess að líta hana á.

,,Pöddu í potti heitum, vil ég ekki sjá!"

- sagði hún þá.

Fór í sund í dag - tvisvar. Er alveg soðin eftir daginn. Samt ekki eins og þetta flugugrey sem ég rakst á í pottinum í dag. Blush

Er svo búin að vera að reyna að laga til hér á síðunni minni. Stillingin mín og uppsetning fór veg allar veraldar í biluninni hér um daginn , en ég hélt ró minni og stilllingu og nú hef ég sumsé ákveðið að hafa þetta svona á næstunni. 


Án ábyrgðar

Skrýtið....
hvernig
ábyrgð annarra
á okkur
virðist
alltaf meiri
en
ábyrgð okkar
á öðrum.
  
 

 

Hef oft velt þessu fyrir mér og spurt sjálfa mig Sókratískra spurninga á borð við:     

 

,, Hver ber ábyrgð á fólki sem kann ekki fótum sínum forráð fjármálum, fellur í áfengis eða vímuefnafenið, lendir upp á kant við “kerfið”, flosnar upp úr skóla, heldur ekki vinnu og leiðist út á glæpabrautina? “   

 

,, Samfélagið – auðvitað”, svara ég sjálfri mér.   

 

 ,,Hvernig ber samfélagið ábyrgðina?”  

 

,, Nú með því að sjá um fræðslu og stuðning fyrir þegna sína og veita þeim viðeigandi meðferð , þegar það á við.”   

 

,,Hverjir gera það?”  

 

,,Nú, ýmsir sérmenntaðir fagmenn s.s. kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, félagsráðgjafar og svo auðvitað almenningur.” 

,Þú meinar þá einhverjir eins og ég og þú?”,

,,Já,”  

 

,,Hver ber þá ábyrgð á okkur?”   

 

,,Enginn, við berum hana sjálf.”  

 

,,Þannig að það eru bara sumir sem bera ábyrgð bæði á sjálfum sér og öðrum og sumir sem bera enga ábyrgð – hvorki á sjálfum sér né öðrum.”  

 

,,Ehmm, já líklega Woundering

 ,,…og virkar þetta ? “                                                                                                                         

Næsta síða »

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband