Leita í fréttum mbl.is

Hraðlestrarskilningur

Sat áhugaverða námstefnu um leiðir til að efla lesskilning í Víðistaðaskóla í dag. Var svo heppin að hitta bloggvinkonu mína hana Rósu á ráðstefnunni og fékk að sitja hjá henni. Það eitt hefði nægt til að gera þennan dag hinn skemmtilegastan en að auki voru fyrirlestrarnir flestir áhugaverðir. Við fengum t.d. að vita (sem við reyndar vissum) að íslenskir unglingar væru í meðallagi læsir. Voru svipaðir Norðmönnnum og Dönum en heldur á eftir Svíum og langt á eftir hinum hæsttrónandi Finnum....og það sem verra var, árangur íslenskra unglinga færi sífellt versnandi.

Í öðrum fyrirlestri kom fram að árið 1979 lásu 90% ungmenna í dagblöð á degi hverjum en árið 2003 lásu einungis 40% þeirra dagblöðin. Samt er aðgengi að slíku efni örugglega auðveldara heldur en áður fyrr. Kennarar hafa lengi bent á hversu mikið hinn almenni lestur hefur dregist saman og hversu lestrarþjálfunarþátturinn hafi verið vanræktur. Áhugi á bóklestri er skammalega lítill og því þurfa þessar tölur ekki að koma á óvart.

Þá var fjallað um gildi þess að efla mál og læsisþroska leikskólabarna og bent á nokkrar hagnýtar leiðir til þess. Góður hlustunarskilningur leikskólabarna skilar sér nefnilega í betri lesskilningi í grunnskóla. Tveir fyrirlestrar fjölluðu síðan um byrjendalæsi og gagnvirkan lestur en þar sem ég hafði kynnt mér hvorutveggja vel áður, kom þar ekkert á óvart. Hugarkort og gerð þeirra vöktu töluverðan áhuga hjá mér og ég hef einsett mér að ná betri færni í að nota þau.

En sá fyrirlestur sem mér fannst aftur á móti einna athyglisverðastur var um hraðlestur, sem leið til að efla lesskilning. Það hljómar mótsagnakennt að aukinn lestrarhraði skili sér í auknum lesskilningi en eftir að hafa hlýtt á mál Jóns Vigfúsar Bjarnasonar hef ég eiginlega komist á þá skoðun að þarna gæti verið um aðferð að ræða sem vannýtt er í lestrarnáminu. Nemendur Hraðlestraskólans árið 2007 voru að sögn Jóns Vigfúsar látnir taka próf í upphafi námskeiðsins og að meðaltali lásu þeir 165 orð á mínútu og voru með 64% lesskilning. Eftir 6 vikna þjálfun höfðu nemendur bætt sig verulega og lásu orðið 618 orð á mínútu að meðaltali og svöruðu 81% atriða rétt af lesskilningnum.

Mér finnst þetta feikigóður árangur og sýnir enn og aftur að það er hægt að bæta sig í lestri ef vilji, regluleg ástundun og hvatning er til staðar. Jón sagði að lágmarkshraði hugans væri í kringum 400 orð á mínútu og ef við læsum hægar en það missti fólk einbeitinguna og lesturinn yrði ómarkvissari og lesskilningur slakari. Það væri verulegt samhengi á milli meiri lesturs og aukins lesskilnings og um leið ykist orðaforðinn gifurlega. Umsagnir nemenda Hraðlestraskólans virtust allar lofsamlegar og töldu nemendurnir sig  hafa grætt gífurlega á námskeiðinu.

Það er kannski hugmynd að koma þessari aðferð inn á mið og unglingastig grunnskólanna......eða hljómar þetta kannski of vel til að geta verið satt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Takk fyrir samveruna

Rósa Harðardóttir, 16.8.2008 kl. 15:24

2 Smámynd: Anna Þóra Jónsdóttir

Sömuleiðis....og ekki spillti heldur fyrir að fá að skreppa með ykkur skemmtilegu konum á  Maður lifandi í hádeginu

Anna Þóra Jónsdóttir, 16.8.2008 kl. 15:26

3 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Við sleppum aldrei tækifæri á að fara á kaffihús eða á aðra viðlíka staði og það var gaman að hafa þig með. En hvað námstefnuna varðar þá fannst mér hún aðeins of flöt og fátt nýtt. En ætla að skella mér í að skoða hugarkortin betur og þetta með hraðlesturinn það finnst mér sérlega áhugavert.

Rósa Harðardóttir, 16.8.2008 kl. 22:21

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Já nú er allt að byrja í skólanum. Ég er búin að sitja í dag og hlusta hvert erindið á fætur öðru sem er í tilefni komu flóttafólksins hingað á Skaga.

Ég er líka mjög hrifin af hugkortum og víða er farið að nota þau. Ég fór t.d. á fyrirlestur í fyrra í Háskóla Reykjavíkur með breska manninum Daniel Tammet sem ég held að noti hugkort og á eftir honum kom Ólafur Stefánsson handboltakappi og sýndi viðstöddum hvernig hann notar hugkort, sem var mjög sérstakt.

Hraðlestrarnámskeiðin poppa alltaf upp og nemendur í framhaldsskólum þyrpast á þau í von um hjálp við lestur undir próf. Þetta eru rándýr námskeið og man ég eftir því að mér fannst agalegt að punga þessum peningum út fyrir dóttur mína á sínum tíma. Hvort það hjálpaði eða ekki var ég aldrei alveg viss um en hún sagði að það hefði hjálpað eitthvað, hefði líklega aldrei þorað öðru eftir býsnin á kostnaðinum við það. 

Takk fyrir þitt innlegg

Edda Agnarsdóttir, 18.8.2008 kl. 14:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband