Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Mama-mía!

Fór með 11 ofurkvinnum á öllum aldri í bíó í kvöld......og það var svooo gaman. Langt síðan maður hefur heyrt fólk hlæja jafn innilega og taka jafn virkan þátt í bíósýningu. Myndin sem vakti slíka kátínu var gaman-söngmyndin Mama mia sem er gerð eftir feykivinsælum söngleik sem byggður var á meistarverkum hljómsveitarinnar ABBA. Ég hafði lesið dóm um myndina og þar var sagt að hún væri ágæt en stæði þó söngleiknum mun aftar. Það var þó ekki að merkja á áhorfendum sem skemmtu sér eins og áður sagði hið besta. Sérstaklega fannst mér Dancing Queen atriðið flott og greinilegt var að leikararnir höfðu mjög gaman af því sem þeir voru að gera. Mæli með þessari - algjör "feelgood-mynd".

Er-maðurinn

Á tímum vols og væls er sjaldgjæft að lesa um jafn mikla þrautseigju og þrek og þessi rúmlega hálfrar aldar gamli maður sýndi í gær þegar hann synti yfir Ermasundið.

Flestir sundlaugargestir, sem finnst þeir nokk duglegir að synda 1000 metra í upphitaðri og lygnri sundlaug ættu að hugsa til þeirra aðstæðna sem þessi íslenski víkingur bjó við á leið sinni. Kuldi, sjávarstraumar, marglyttur, þang, myrkur, salt og 60 000 metra veglengd í ókyrrum sjó.

Það tók Benedikt Hjartarson 16 klukkutíma og eina mínútu að synda yfir Ermasundið - mér þætti nú bara erfitt að liggja í heita pottinum í þann tíma, hvað þá meira. Í mínum huga er maðurinn einn allra mesti afreksmaður ársins.

Til hamingju Benedikt með einstakt afrek !

 


mbl.is Sundið mikil þrekraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag er 06 07 08

..og sólin, sem búin var að boða komu sína á veðurstofunni, hefur ákveðið að “beila á” því og skreppa eitthvert annað.

Ég er búin að vera með iðnaðarmann í vinnu undanfarið í viðgerðarvinnu og þegar henni lauk þurfti að taka til og þrífa heil ósköp. Verð að segja að það er ekki mín alsterkasta hlið – þ.e. tiltekt.

Nú er stofan orðin fín og ég ætlaði svo sannalega að nota daginn í sund og sólbað...en maður verður bara að bíða og vona að sólarskömmin sé bara sein - hafi ekki alveg hætt við.                                                                                                                                                                                                                                                                                                       Tiltekt                                                                                              Það er á svona dögum
sem ég hef svo
óskaplega lítið
að segja.

Hendur mínar enn angandi
af salmíaksskotinni sítrónulykt.
Skúringaminningin
sveimandi um í bakinu.
Hálsinn þurr
af uppburstuðu ryki.

Og loðin tungan
fylgist áhugalaus með
hugsunum mínum
í líki
Ajax-stormsveips
reyna að taka sig til.

  

Fluga, fluga, hugarfluga

Lá grafkyrr
þóttist sofa.
Þú
suðandi
sveimandi
settist á eyra
mitt.
Sló
eldsnöggt
yfir eyrað
og fann
að þú slengdist
inn.

Síðan hafa
hugsanir mínar
flogið
stefnulaust
á vængjum þínum.

Þær eru mættar, svartar og suðandi, sveimandi frekjulega í kringum mann og tiplandi ögrandi á matvælum og mönnum.  Eins og mér finnst sumarið yndislegt það er ég engin flugnavinur. Finnst kóngulærnar miklu bærilegri og kurteisari dýr.


Skot og mark x7

Rosalegir yfirburðir íslenska kvennalandsliðsins fóru ekki fram hjá neinum sem á horfði. Sjö-núll sigur var síst of stór. Nú er það bara leikurinn við Frakka sem er eftir. Með góðum úrslitum gegn þeim er íslenskt fótboltalið á leið á EM í fyrsta sinn....og það yrði ekki leiðinlegt.

Ég fór á leikinn og í dag voru töluvert fleiri áhorfendur á leiknum heldur en á móti Slóvenum. Góð stemming var á pöllunum og almenn ánægja með frammistöðu stelpnanna - enda ekki annað hægt. Mér fannst stelpurnar okkar vera nánast stanslaust í sókn og tölfræðin segir að liðið hafi komið 28 skotum á mark. Gríski markvörðurinn var áberandi besti leikmaður hjá gestunum en þurfti þó að sækja boltann sjö sinnum í netið. Hólmfríður skoraði þrennu í leiknum og Margrét Lára tvennu en annars var allt liðið að spila vel og hvergi veikan hlekk að finna. Hinn ungi landsliðsþjálfari,Sigurður Ragnar hefur náð alveg frábærum árangri með liðið og í raun mjög svo eftirtektarverðum, þar sem þetta er frumraun hans á þjálfaraferlinum. Vel gert hjá stráknum og "stelpunum" hans.

Ísland á EM!


mbl.is „Núna eigum við alla möguleika í heiminum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland....

Skrapp á landsleikinn með tveimur hressum 11 ára strákum. Íslenska kvennalandsliðið stóð sig að venju feykivel vann öruggan og sanngjarnan sigur á liði Slóveníu. Strákunum fannst mjög gaman og voru fullir aðdáunar á mörkum Margréti Láru og fimleikainnköstum Ástu Árnadóttur. Það var sko engin leiðindar kvenfyrlitning eða karlremba í gangi á þeim bæ. Alltaf gaman að fara á völlinn. Flott veður og fín stemming. Ingó Idol hélt upp stuði í hálfleik og gerði það vel.

Finnst samt Woundering.....- þrátt fyrir þá 4000 og eitthvað áhorfendur sem lögðu leið sína á völlinn, að fleiri hefðu átt á sýna stelpunum stuðning í verki í dag og mæta. Vona að fleiri mæti á fimmtudaginn þegar þær taka á móti Grikkjum.

Stelpurnar eru að standa sig.....nú verðum við hin líka að gera það.

Ísland á EM!


mbl.is Ísland vann stórsigur á Slóveníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur í AGT ?

Var að horfa á Amercan´s got talent í sjónvarpinu áðan og þar gat ég ekki betur séð en einn keppandinn sé nauðlíkur einni ástsælustu leikkonu okkar Íslendinga.  Þetta er skemmtikraftur sem kallar sig ýmist Boy Shakira eða Boy Britney þegar hann er að stæla sínar eftirlætissöngdívur.

Hverja haldiði að ég sé að meina?  Smá vísbending: Hún er þekkt fyrir óviðjafnanlega túlkun sína á þýskum kvensum og auðvitað Gyðu Sól.

boybrit
                        
Ef þið sáuð ekki þáttinn þá er hægt að horfa á Boy-Britney (aka Boy- Helga Braga) á youtube.com
Nú er bara spurningin hvort Helga Braga fari eki bara næst í þáttinn og láti uppgötva sig. Það er altjént ein leið til að vera á "allra vörum".

Ísbjarnarblús

Um heiðina hefur hann

gengið síðan í gær

Kafloðnir fingur

illa lyktandi klær

Hörfar þegar lögreglan

þokast nær.

 

Ísinn er bráðinn og hann sigldi í strand.

Vissi það ekki þegar hann steig hér á land

að það yrðu hans seinustu spor

-þetta vor.

Það fékk á mig þegar ég horfði á ráðvillt dýrið skotið. Er ennþá döpur. Finnst þetta einhvern veginn eitthvað svo absúrd....var þetta örugglega eina leiðin? Einhvern veginn finnst manni það ekki geta staðist.


mbl.is Einmana og villtur hvítabjörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

......fine tuning

Vertu stilltur….
-sagði hún
og hegðaðu þér
almennilega.

Hvernig gat hann
verið stilltur.
Hann sem hafði
aldrei
verið stilltur
-almennilega.
 

 

Orti þetta litla ljóð einu sinni á áhugaverðu endurmenntunarnámskeiði sem ég sat. Maður hefur alltaf gott af því að setja sig í spor nemenda sinna og reyna að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni. 

Rithöfundinn Victor Hugo sagði eitt sinn; He who opens a school door, closes a prison.  Ábyrgð skólanna á menntun og þroska ungmennanna er því  mikil.  Forsenda þess að skólar geti axlað þessa miklu ábyrgð er að til þeirra veljist hæft hugsjónafólk sem viti hvað þarf að gera og geri það sem þarf. Forsenda þess að þetta hæfa fólk veljist í þetta miklvægasta starf þjóðarinnar er að því sé boðin vinnuaðstaða og kjör sem hæfa þeirri ábyrgð sem það ber. Forsenda þess að vinnuaðstaða og kjör séu viðunandi er að þjóðin axli ábyrgðina með skólunum og allir taki höndum saman um að byggja upp virðingarvert og verðmætt menntasamfélag þar sem allir hafa tækifæri til að njóta sín, bæði nemendur og starfsfólk. Kannski er þetta þegar öllu er á botninn hvolft -bara smá stillingaratriði....-eða eins og þeir segja í bransanum " fine tuning".

Rakst á þetta “spakmæli” um daginn og finnst það eiga vel við.  Good teachers are costly, but bad teachers cost more.  ~Bob Talbert

 

 

Skoskur leigumorðingi?

Í
skúmaskoti hugans
þar sem hafmeyja
hugsana minna
syndir
áhyggjulaus
liggur
veiðimaður efans
vopnaður
skoti
í myrkri.

 

.. lítið ljóð á ljúfum laugardagsmorgni, þegar allt virðist einhvernveginn svo rólegt.......


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Þóra Jónsdóttir
Anna Þóra Jónsdóttir
Kattelsk kennslukvinna úr Greifavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband